138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina og andsvarið. Ég er bjartsýnn að eðlisfari eins og hv. þingmaður veit og trúi gjarnan á hið góða í hverjum manni þannig að ég hef þá trú að með þeirri vinnu sem við stjórnarandstæðingar erum að leggja á okkur þessa dagana, við að upplýsa málið með sífellt dýpri hætti, og að reyna að höfða til stjórnarþingmanna, að einhverjir þeirra fari að velta því fyrir sér hvernig á því stendur að nú hafi 15 þúsund Íslendingar skrifað á undirskriftasöfnun Indefence-hópsins þar sem skorað verður á forsetann að neita að staðfesta þessi lög.

Í ljósi þess að forsetinn skrifaði upp á sumarþingslögin með tilvísun til fyrirvaranna sem gerðir voru við samninginn, að þar væri haldreipi fyrir íslenska þjóð, finnst mér það með ólíkindum að menn skuli vera að reyna að keyra þetta mál hérna í gegnum þingið. Ég get ekki séð að forsetinn geti staðfest frumvarpið sem lög, ef við samþykkjum það með mjög litlum meiri hluta. Það hefur líka komið í ljós, þrátt fyrir að það sé ekki komið í ljós í umræðunni hér í þingsal, að mörgum þingmönnum, ekki síst þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, finnst þetta mjög sérkennilegt og erfitt mál og eiga erfitt með að samþykkja þetta.

Ég trúi því enn að einhverjir þingmenn í þeim hópi muni á endasprettinum skipta um skoðun og sjá að þetta getur ekki gengið svona, málinu þurfi að vísa til nefndar. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þar þarf utanríkismálanefnd að koma að og fara þarf yfir þær fundargerðir og þá fundi sem fosvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa átt (Forseti hringir.) á þessum vettvangi.