138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil beina því til forseta að kalla til í þingsal hæstv. fjármálaráðherra. Ég veit að næsti þingmaður sem mun flytja hér ræðu, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, mun m.a. beina ákveðnum spurningum til hæstv. fjármálaráðherra.

Nú vill svo til að ég veit að formannafundur hófst um hálftólf og ef sá fundur stendur enn vil ég beina því til hæstv. forseta að gera þá hlé á þessari umræðu — annaðhvort að gera hlé á þessari umræðu og taka þá inn önnur mál sem eru nú þegar á dagskrá. Við sjálfstæðismenn höfum margoft sagt: Við skulum taka og fara í umræðuna um fjáraukalögin, þessar ömurlegu ráðstafanir í skattamálum o.s.frv., við skulum hleypa því á dagskrá. En ég tel rétt í ljósi þess að við viljum fá svör frá hæstv. fjármálaráðherra, og hann er hugsanlega á fundi núna, að forseti geri þá annaðhvort hlé á þessari umræðu og veiti þá matarhlé eða hvernig sem hann kýs að haga því eða taki fyrir annað mál (Forseti hringir.) sem er nú þegar sett á dagskrá þingsins.