138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og forseta er von og vísa vil ég þakka fyrir þessi svör og er almennt þakklát fyrir að forseti skuli svara. Ég á því ekki að venjast alla jafna frá ýmsum öðrum forsetum þannig að ég vil sérstaklega þakka fyrir svörin.

Ég vil engu að síður beina því eindregið til hæstv. forseta að mælast til þess að fjármálaráðherra verði hér í salnum þegar næsti ræðumaður flytur ræðu sína, ákveðnum spurningum verður beint til hans. Það er skiljanlegt og reyndar bráðnauðsynlegt að formenn stjórnmálaflokkanna ræði saman, en þá er líka — í ljósi þess að það eru ráðherrar í ríkisstjórn sem sitja þann fund, ráðherrar sem við viljum eiga orðastað við — nauðsynlegt að gera hlé á fundinum þó ekki væri nema í korter eða hálftíma þannig að þingmenn, sem forseti er líka forseti fyrir, fái tækifæri til þess að beina mjög eindregnum spurningum til ráðherranna.