138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

dagskrá fundarins.

[15:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa verið sögð. Ég held að þetta sé sanngjarnt tilboð og skynsamlegt. Mig langar líka að benda á að það er í rauninni ekkert sem kallar á að Icesave-málið verði klárað. Ég vil í því sambandi benda á að allur hræðsluáróðurinn sem haldið hefur verið á lofti í málinu, t.d. varðandi 23. október, um að einhver gæti höfðað mál út af neyðarlögunum þegar búið var að höfða mál, reyndist vera blekking með það eitt að markmiði að keyra þetta mál í gegn.

Ég vonast því til þess, virðulegi forseti, að tilboð minni hlutans verði tekið til skoðunar og vonandi sýnir ríkisstjórnin þá skynsemi að samþykkja tilboðið.