138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

dagskrá fundarins.

[15:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég styð vitanlega þær tillögur sem komið hafa um hvernig halda megi áfram umræðu um brýn mál í þinginu. En ég kem aðallega upp til að gera athugasemdir við orð hæstv. fjármálaráðherra þess efnis að útskýrt hafi verið fyrir forustumönnum flokkanna hvernig á því standi að ljúka þurfi 2. umr. um Icesave áður en hægt sé að ræða önnur mál. Ég hafna því að fengist hafi skýringar á því.

Það liggur nefnilega ekkert á því að klára þetta mál. Það er búið að staðfesta að þetta hefur ekkert með lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að gera, enda væri náttúrlega fáránlegt ef menn ætluðu að sætta sig við það. Og jafnframt að öll þau atriði sem nefnd hafa verið til sögunnar sem ástæða þess að klára þurfi Icesave eru komin í þann farveg að þessu máli þarf ekki að ljúka fyrr en á næsta ári þess vegna. Það er því fráleitt að tefja önnur og brýnni mál á meðan.