138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

dagskrá fundarins.

[15:22]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við í stjórnarandstöðunni höfum sett fram gott og sanngjarnt tilboð sem felst í því að við gerum hlé á þessari Icesave-umræðu í þrjá klukkutíma í kvöld og kannski þrjá til fjóra klukkutíma á miðvikudaginn til að skattalagafrumvörpin megi fara til nefndar svo hægt verði að vinna að þeim.

Það flokkast ekki undir annað en þvermóðsku að þiggja þetta ekki og minnir mig á það sem er kallað í leikjafræði leikinn „Chicken“ þar sem menn keyra hvor á móti öðrum og athuga hvor beygir fyrr. Við höfum beygt núna, stjórnarandstaðan, með því að bjóða upp á þetta þannig að við séum ekki að stefna þessum málum í einhverja hættu. Hæstv. fjármálaráðherra lætur ekki segjast og þrjóskast við og hótar því að úlfurinn stóri og vondi sé að koma og gleypa okkur, enn eitt skiptið.