138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

dagskrá fundarins.

[15:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil enn einu sinni skora á forsætisnefnd þingsins og hæstv. ríkisstjórn að hverfa frá því sem sumir hér kalla þvermóðsku en ég vil kalla kannski eindrægni eða ég veit ekki hvað á að kalla þetta.

Fréttir eru að berast af uppsögnum bæði á Vestfjörðum og í Reykjavík þar sem menn vísa til væntanlegra skatta á fyrirtæki, enda er tryggingagjaldið ekkert annað en skattur á atvinnu. Það er verið að breyta vinnandi skattgreiðendum í atvinnuleysingja sem þiggja bætur. Það er verið að auka útgjöld ríkissjóðs og minnka tekjurnar. Þetta er mjög alvarlegt.

Á sama tíma, frú forseti, er á þingskjali 230 frá Sjálfstæðisflokknum tillaga um að skattleggja séreignarsparnað sem gerði allar þessar skattaálögur óþarfar, allar. Það mundi þýða að þau fyrirtæki gætu þá ráðið þetta fólk aftur.