138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég er hér að ræða mál sem við öll þekkjum og er orðið nokkuð mikið þráhyggjumál hjá ríkisstjórninni. Ég sé að hæstv. utanríkisráðherra ætlar sér ekki að taka þátt í þeirri umræðu. (Gripið fram í.) Menn tala um að nýir hlutir gerist ekki, þ.e. að ekkert nýtt komi fram í umræðunni, en ég held að dagurinn í dag sé skýrt dæmi um það hvar þetta mál stendur. Þetta er orðið algjört þráhyggjumál svo maður noti hugtak sem stjórnarliðar þekkja ágætlega, þetta er orðið algjört þráhyggjumál hjá ríkisstjórninni. Hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á það augljósa sem við sjáum þegar við skoðum fjölmiðla, að þessar ábyrgðarlausu áætlanir og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um ofurskatta eru strax farnar að virka á þann hátt að atvinnulausu fólki fjölgar á Íslandi.

Hér kemur stjórnarandstaðan hvað eftir annað og býður það að við ræðum þau mál. Nei, þráhyggja ríkisstjórnarinnar er orðin slík að alveg sama hvað gerist, alveg sama hversu margir verða atvinnulausir, alveg sama hvaða fréttir berast inn í þingsal, áfram skal haldið með þetta mál, og þeirra eigin málum, virðulegi forseti, eigin málum ríkisstjórnarinnar, ofurskattamálum ríkisstjórnarinnar skal m.a. vikið til hliðar vegna þess að menn ætla að keyra þetta mál áfram.

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra, sem hér er í salnum, þótti að sér vegið í morgun. Hann kallaði a.m.k. fram í, ég man ekki hvort það kom fram í ræðu hans, að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir vændi hæstv. ráðherra um landráð eða eitthvað slíkt, (REÁ: Ég gerði það aldrei.) sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir gerði aldrei. Fyrir hæstv. fjármálaráðherra skal ég hins vegar bara tala alveg skýrt þegar kemur að hlut hans í þessu máli. Ég tel, virðulegur forseti, að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki haldið vel á hagsmunum Íslands í þessu máli, svo það sé algerlega skýrt.

Ég vek athygli á því, virðulegur forseti, að hæstv. fjármálaráðherra gagnrýndi hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir að biðja um minnispunkta, fundargerðir og annað slíkt. Hann fór hér mikinn, fannst þetta hið versta mál og vændi hv. þingmann um að vilja vera með hæstv. ráðherra á öllum fundum. Hann bauð hv. þingmanni að koma með sér og hv. þingmaður þáði það boð en þá var það dregið snarlega til baka.

Virðulegi forseti. Þann 24. janúar, ekki á síðasta ári eða þarsíðasta, nei, á þessu ári skrifaði sá sem hér situr, hæstv. fjármálaráðherra, grein sem bar yfirskriftina Sorgarsaga Icesave-málsins. Ég hvet landsmenn til að lesa núna þessa grein.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Margt er enn óljóst eða óupplýst hvað varðar fundi, bréf og samtöl íslenskra ráðherra og embættismanna sem kann að hafa haft áhrif á að Bretar beittu hryðjuverkalögum á íslenskan banka.“

Í greininni fer þáverandi hv. þingmaður í stjórnarandstöðu, núverandi hæstv. ráðherra, fram á að fá að vita um málið, nánar tiltekið um fundi aðila. Skoðið síðan viðbrögðin hér í morgun, skoðið viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar við nákvæmlega sömu óskum frá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Þetta var fyrir nokkrum mánuðum. Þá gekk allur málflutningurinn út á að það þyrfti kosningar, það þyrfti ákveðna menn til að taka á þessu og gæta hagsmuna Íslendinga. Þá yrði þetta allt betra.

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra sagði þá orðrétt, með leyfi forseta:

„Í ljósi þessa er mesta örlagastundin í Icesave-málinu í raun enn eftir.“

Nokkrum dögum eftir þetta tekur hæstv. ráðherra við málinu. Ég ætla ekki að lesa allar ræðurnar frá hæstv. ráðherra, sem þá var hv. þingmaður, en ég get alveg lofað ykkur því, virðulegi forseti, að stjórnarliðum og ráðherrum voru ekki vandaðar kveðjurnar. Reyndar er í þessari grein farið yfir meint klúður þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra. Menn spöruðu ekki stóru orðin.

Síðan kemur hæstv. fjármálaráðherra með málið í sumar og reynir að sannfæra þjóðina á þeim tímapunkti um að hér sé um virkilega gott mál að ræða. Það átti að fara úr þinginu óséð og það þýðir ekkert að halda neinu öðru fram. Ég þekki það vel þar sem ég var í viðskiptanefnd þegar ég bað um að við fengjum að sjá samkomulagið og ég fékk þær upplýsingar frá þeim aðila sem þar kynnti það fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ekki stæði til að hv. þingmenn fengju að sjá málið eða samninginn sem var gerður þá heldur væri hugsanlegt að Ríkisendurskoðun mundi skoða hann og túlka hann ofan í þingmenn. Þannig var málið lagt upp.

Í kjölfarið fór fram gríðarleg vinna. Í lok hennar sagði maður sem situr hér, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, með leyfi forseta:

„Við erum að taka til lokaafgreiðslu erfitt og þungt mál sem verður vonandi leitt hér til lykta. Í meðförum þingsins hefur sú ríkisábyrgð sem verið hefur til umfjöllunar lotið miklum og öflugum fyrirvörum sem við verðum síðan að fylgja eftir. Það er Alþingi sem setur þessa fyrirvara og það er Alþingi sem mun fylgja þeim eftir. Við treystum á að þeir haldi og höfum fullvissu fyrir því.“

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir hér skýrt að hann hafi fullvissu fyrir því að fyrirvararnir haldi. Við þekkjum að það gerðu þeir ekki.

Ragnar Halldór Hall segir í grein í dag, með leyfi forseta:

„Það gerist næst að ríkisstjórnin sendir út fulltrúa sína til að kynna fyrirvarana og væntanlega til að afla samþykkis vinaþjóðanna þannig að hægt væri að ljúka verkefninu. Þá bregður svo við að þessir fulltrúar koma til baka með þau skilaboð að Bretar og Hollendingar vilji ekki samþykkja skilyrðin, og þess vegna sé alveg nauðsynlegt að breyta þeim!“

Virðulegi forseti. Þetta eru ekki orð stjórnarandstæðinga, þetta eru orð helstu sérfræðinganna á þessu sviði.

Til að gera málið enn verra fyrir okkur Íslendinga lætur ríkisstjórnin það yfir sig ganga að halda áfram með málið eftir að við höfum fengið bréf frá forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown. Hvað segir sá forsætisráðherra, virðulegi forseti? Fyrir utan að fagna og lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í þessu máli segir hann, með leyfi forseta:

„I welcome your government's commitment to ensuring that the guarantee is legally binding.“

Virðulegi forseti. Hann fagnar því að málið sé afgreitt með þeim hætti að það sé lagalega bindandi. Það að þessi aðili sendi bréf með þessum hætti — látum vera með afganginn af bréfinu þar sem er vægast sagt talað niður til íslenskra ráðamanna, látum það vera, og íslenskrar þjóðar — en hér er fosætisráðherra Breta að túlka þessa samninga og þessa gjörninga þvert á það sem ráðamenn og forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa túlkað ofan í þjóðina.

Er þetta ekki næg ástæða til að við segjum hér, virðulegi forseti, þegar við erum búin að fá þessar meldingar, nota bene tveimur og hálfum mánuði eftir að þessum forsætisráðherra var sent bréf, eru þessi skilaboð ekki þess eðlis að við segjum: Herra Gordon Brown, við tökum ekki þátt í þessu. Við sendum þér hér með þau skilaboð að við erum hætt að ræða þetta mál hér á þinginu. Við látum ekki koma svona fram við okkur?

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvað þarf til að ráðherra í íslensku ríkisstjórninni segi: Hingað og ekki lengra, ef þetta er ekki nóg? Er ekki nóg að þingmenn á Evrópusambandsþinginu setji ofan í við okkur og segi okkur að við komumst ekki inn í Evrópusambandið nema uppfylla túlkun þeirra á EES-samningnum? Ef þetta tvennt er ekki nóg, hvað þarf til að hæstv. ríkisstjórn segi: Svona komið þið ekki fram við Íslendinga? Hvað þarf til?

Þegar Alistair Darling talar um innstæðutryggingar segir sá maður, virðulegi forseti, eins og haft er eftir honum í Morgunblaðinu í dag:

„Jafnframt hefur Alistair Darling nýlega lýst því yfir að hann muni ekki ábyrgjast innstæður sem var stofnað til utan yfirráðasvæðis breska fjármálaeftirlitsins og þá má spyrja sig hvort hann telji aðrar reglur gilda um Íslendinga en Breta þegar kemur að innstæðutryggingum.“

Hér segir fjármálaráðherra Breta: Við mundum aldrei láta koma svona fram við okkur eins og við ætlumst til þess að Íslendingar láti koma fram við sig. Bretar segja að allt aðrar reglur gildi um Íslendinga en um Breta. Samt sem áður, virðulegi forseti, lætur ríkisstjórnin þetta yfir sig ganga, gerir það að forgangsmáli og hefur notað ýmis rök. Ein rökin voru þau að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri innheimtustofnun fyrir Evrópusambandið og Breta og Hollendinga og þar af leiðandi ættum við ekki neina valkosti vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri í þessu innheimtuhlutverki. Nú hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagt að það sé bara vitleysa. Samt sem áður er þetta forgangsmál hjá ríkisstjórninni. Það skiptir engu máli þó að verið sé að segja upp fólki um allt land út af vanhugsuðum ofurskattahugmyndum ríkisstjórnarinnar. Það skiptir engu máli, þetta mál skal fara inn og klárast, alveg sama á hverju gengur.

Virðulegi forseti. Ég vildi í fyrsta lagi fá að vita frá hæstv. fjármálaráðherra hvort þessar bréfaskriftir, þessi skilaboð frá Evrópusambandinu og það hvernig Alistair Darling talar hafi ekki einu sinni vakið upp þá umræðu á ríkisstjórnarheimilinu að menn segðu: Heyrðu, tökum þessa menn á orðinu, tökum Alistair Darling á orðinu. Ef hann segir að þessar reglur eigi ekki að gilda um þá, eru það ekki skýr skilaboð til okkar um að þær eigi ekki að gilda fyrir okkur, þessi meingallaða tilskipun sem við þurftum að taka upp frá Evrópusambandinu?

Ég spyr líka hæstv. ráðherra: Var hann að væna fyrrverandi hæstvirta ráðherra um landráð þegar hann vildi fá upplýsingar, minnisblöð og fundargerðir um samskipti þeirra við kollega sína, eins og hann vændi hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur um að gera í sínu tilfelli?

Svo spyr ég, virðulegi forseti, hæstv. fjármálaráðherra hvort það hafi einhver áhrif á hæstv. ríkisstjórn sem vill svo til að samanstendur af Vinstri grænum og Samfylkingunni að nú stendur yfir undirskriftasöfnun þar sem skorað er á forsetann að skrifa ekki undir þessi lög. Hvaða skoðun hefur hæstv. fjármálaráðherra á þeirri undirskriftasöfnun? Hæstv. ráðherra og þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar hafa ekkert farið í grafgötur með að þeim finnist æskilegt að forsetinn beiti því að skrifa ekki undir lög þegar svo ber undir. Þeir fögnuðu því mjög þegar forseti lýðveldisins skrifaði ekki undir fjölmiðlalögin á sínum tíma.

Nú má færa rök fyrir því að fjölmiðlalögin séu stórt mál. Ég held að vísu að flestir hafi komist að þeirri niðurstöðu að það hefði verið skynsamlegt að þau lög hefðu fengið að gilda, en það er annað mál. Það er hins vegar enginn vafi á því að Icesave-málið er eitt stærsta málið sem við höfum tekið hér fyrir. Það væri fróðlegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra segja skoðun sína á því hvort forsetinn eigi að skrifa undir lögin eða ekki. Hæstv. ráðherra og flokksmenn hans höfðu miklar skoðanir á þessu á sínum tíma. Ég held að ég muni það alveg rétt að þeim þótti afskaplega vel að verki staðið þegar forsetinn skrifaði á sínum tíma ekki undir lög sem samt sem áður hafa mun minni áhrif en Icesave.

Virðulegi forseti. Hér unnu þingmenn dag og nótt í allt sumar til að ná niðurstöðu í þessu stóra máli. Hæstv. fjármálaráðherra sagði, eins og hæstv. forsætisráðherra, að þau lög væru innan ramma samkomulagsins og þau kviðu því ekki að útskýra þau fyrir viðsemjendum okkar. Sá sem hafði forustu um málið í þinginu, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, sagðist vera með fullvissu fyrir því að þessir fyrirvarar mundu standa. Það er algjörlega óskiljanlegt, virðulegi forseti, eftir þessar yfirlýsingar að ekki skyldi fara betur. Þessir menn litu ekki á þetta eftir að skoða málið bara dagspart, þetta var búið að vera á dagskrá þingsins nokkurn veginn upp á hvern einasta dag allt sumarþingið. Þeir þekktu það út og inn og voru í samskiptum við erlenda aðila, sögðu okkur, sögðu þjóðinni að þetta mál væri frágengið.

Nú er búið að hvika frá fyrirvörunum, þeir eru farnir, eins og Ragnar H. Hall hefur bent á, og hér ætla menn að ganga í flýti frá máli sem (Forseti hringir.) er algjör uppgjöf af hálfu ríkisstjórnarinnar.