138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ágætisræðu. Mig langar aðeins að spyrja hann út í og velta vöngum yfir nokkrum hlutum sem komu fram í ræðu hans. Hann nefndi m.a. nauðsyn þess að við stæðum saman að þessu máli og þörf fyrir samstöðu bæði innan þings og einnig meðal þjóðarinnar. Í ljósi þess að umræðan hefur kannski verið nokkuð einhliða — það hefur verið verulegur skortur á sjónarmiðum stjórnarliða, a.m.k. í þessari pontu upp á síðkastið — og í ljósi þess að meðal þjóðarinnar virðist vera mikil andstaða við Icesave-málið í skoðanakönnunum, þótt óformlegar séu, og svo virðist sem stjórnarliðar hafi ekki náð að höfða til meiri hluta þjóðarinnar um þetta mál, velti ég því fyrir mér af hverju þeir koma ekki meira upp í pontu til að reyna að útskýra sitt mál og jafnvel að reyna að sannfæra okkur stjórnarandstæðinga.

Í ljósi þess að forseti Íslands undirritaði lögin sem við afgreiddum á sumarþingi með tilvísun í þá fyrirvara sem þá voru settir, og núna eru verða, held ég, um 15 þúsund einstaklingar sem hafa skráð sig á indefence.is til að skora á forsetann að skrifa ekki undir þann viðaukasamning sem á að fara í gegnum þingið, velti ég því upp hvort hv. þingmaður telji ekki nauðsynlegt fyrir hæstv. ríkisstjórn eða hv. stjórnarþingmenn að koma hér upp og reyna að sannfæra kannski fleiri fulltrúa meðal þjóðarinnar um að þetta sé rétt leið og jafnvel okkur stjórnarandstæðinga líka. Eða telur þingmaðurinn að forsetinn muni verða við þessum tilmælum, væntanlega mun fleiri (Forseti hringir.) þúsunda manna ef þetta heldur áfram að safnast saman, um að skrifa ekki undir þennan viðaukasamning? Og til hvers erum við þá að reyna að keyra málið í gegn ef (Forseti hringir.) það endar síðan þar?