138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni út af stjórnarliðunum. Reyndar spurði ég hæstv. fjármálaráðherra þriggja spurninga — hann var hér í salnum — og var að vonast til að hann mundi nýta andsvararétt sinn til að koma inn á þær og svara þeim en það gerði hæstv. fjármálaráðherra ekki. Ég er ekki einn um að spyrja þessara spurninga eða hv. stjórnarandstæðingar, landsmenn spyrja sig: Hvað þarf til, þegar forsvarsmenn þjóða koma fram við Íslendinga eins og raun ber vitni, til þess að hreyfa við ríkisstjórninni?

Ég er ekki þeirrar skoðunar að menn eigi alltaf að fylgja skoðanakönnunum, alls ekki. Stjórnmálamenn verða að þora, ef þeir hafa sannfæringu fyrir málum og vita að þau skila sér verða þeir stundum að þora að sigla á móti straumnum. Þeir stjórnmálamenn sem við minnumst og erum hvað stoltust af, hvort sem það eru stjórnmálamenn á Íslandi eða annars staðar, þurftu allir að gera það.

Virðulegi forseti. Það breytir því ekki að ekki hafa komið efnisleg rök fyrir því af hverju við eigum að klára þetta núna. Ég held að það væri í rauninni ágætt ef forustumenn ríkisstjórnarinnar mundu sannfæra sína eigin menn, því að ég finn enga sannfæringu meðal stjórnarliða fyrir þessu máli, ekki nokkra. Það er ein af ástæðunum fyrir því að þeir taka ekki þátt í umræðunni hér. Þeim þætti örugglega ekkert leiðinlegt að taka okkur aðeins í gegn ef þeir hefðu einhverja sannfæringu fyrir máli sínu.

Varðandi forsetann, af því að hv. þingmaður spyr um það, þá er það mjög umdeilt svo ekki sé dýpra í árinni tekið að hann skrifi ekki undir lög þegar svo ber undir. En hann skrifaði undir, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti réttilega á, með sérstakri vísan til þess að fyrirvararnir væru svo strangir. Nú eru þeir fyrirvarar farnir. Vinstri grænir og Samfylkingin hafa verið helstu hvatamenn fyrir því að forseti lýðveldisins skrifi ekki undir lög þegar svo ber undir, þannig að þeir (Forseti hringir.) hljóta að fagna því manna mest ef sú verður niðurstaðan.