138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar aðeins til að halda áfram að velta fyrir mér þessum þætti málsins. En eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, gæti ég alveg trúað því að stjórnarliðar, a.m.k. heyrir maður það á göngum þó að þeir komi ekki hér í pontu, og margir hafa reyndar viðurkennt það líka að þetta sé mjög erfitt mál, vildu svo gjarnan geta gert þetta með öðrum hætti, þannig að menn mundu væntanlega ekki geta komið hér upp og talað af miklum trúarlegum hita um sannfæringu sína í þessu máli að við eigum að fara þessa leið.

Ég velti því fyrir mér hvort í máli af þessari stærðargráðu — eins og kom fram til að mynda í ágætri grein eftir Ragnar Árnason í Morgunblaðinu í dag þar sem hann var að bera saman stærðargráðuna á sjávarútveginum á Íslandi og hagsmunum hans, virði hans, og svo Icesave-skuldbindingarnar. Hann taldi að fyrr á tímum, þegar við stækkuðum fiskveiðilögsöguna hefðum við gert það saman, þjóðin, og jafnvel á grundvelli hluta sem væri alveg á mörkunum á þeim tíma a.m.k. að vera þjóðréttarlega löglegt, að við hefðum verið tilbúin að gera ýmsa hluti til að bæta stöðu þjóðarinnar — hvort í þessu máli séu ekki hagsmunirnir svo gríðarlegir eða svo stórir að það sé varla hægt að bjóða upp á það að þingið með litlum meiri hluta og jafnvel kannski, eins og fram hefur komið, lítilli sannfæringu stjórnarmeirihlutans, keyri málið í gegn. Og eins og kom fram hjá hv. þingmanni kannski alveg að tilefnislausu þar sem ekkert virðist, eins og hefur komið fram í mörgum ræðum, þrýsta á okkur að klára málið núna á næstu dögum, jafnvel ekki vikum og jafnvel ekki mánuðum. Hvort það væri kannski rétt að setja þetta mál hreinlega í þjóðaratkvæðagreiðslu, að það sé sem sagt það mikilvægt (Forseti hringir.) að þess þurfi.