138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir hans málefnalegu ræðu og vil taka það fram í upphafi að mér finnst umræðan hafa verið mjög málefnaleg og sakna þess svolítið að stjórnarliðar skuli ekki treysta sér í umræðuna. En þá vaknar upp sú spurning hvort þeir hafi kynnt sér málið, hvort þeir hafi lagt sig fram um að lesa gögnin vegna þess að maður upplifir það núna að fjölmiðlar og fólkið í landinu er að átta sig á því betur og betur hversu slæmir þessir samningar eru og hversu ósanngjarnir þeir eru fyrir Íslands hönd. Auðvitað vaknar sú spurning hverra hagsmuna erum við eiginlega að gæta, þingmenn? Ég veit að breskir þingmenn eru að gæta hagsmuna bresku þjóðarinnar og hollensku ráðherrarnir eins og Wouter Bos eru að gæta hagsmuna sinnar þjóðar. Það er kannski þess vegna sem hann knýr Íslendinga til þess að greiða Icesave jafnvel þótt hann sé ekki sannfærður um að það sé rétt. Eins og kom núna upp í fjölmiðlum hefur hann sjálfur enga sannfæringu lengur um að þetta sé rétt, en hann hefur ákveðið að gæta hagsmuna sinna þegna. Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hverjar skyldur okkar þingmanna eru hér í Alþingi.

Og af því við erum með svona stuttan tíma hér í andsvörum langaði mig til þess að taka undir með hv. þingmanni þegar hann var að benda á að ríkisstjórnin hefur í rauninni ekki haft neitt samningsumboð til þess að ræða Icesave-samningana. Það stendur einfaldlega mjög skýrt í lögunum frá því í lok ágúst að ef Bretar og Hollendingar (Forseti hringir.) samþykki ekki fyrirvarana, (Forseti hringir.) falli ríkisábyrgðin úr gildi.