138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki hlaupið frá forsögunni í þessu máli. 11. október 2008 kom fréttatilkynning frá forsætisráðuneytinu þar sem boðað var að samkomulag hefði náðst um að leiða þetta mál til lykta. Samkomulag á hvaða grunni? Á viljayfirlýsingu um að þetta yrði gert með tíu ára láni á fullum 6,7% vöxtum frá fyrsta ári. Í nóvember var undirrituð samstarfsyfirlýsing við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þar á meðal af þáverandi seðlabankastjóra Davíð Oddssyni. Þar stóð að leiða ætti málið til lykta á næstu dögum á grundvelli samkomulags um forfjármögnun Breta og Hollendinga. Hvaða samkomulag lá fyrir um það? Viljayfirlýsingin um (Gripið fram í.) lán til tíu ára á 6,7% vöxtum. Í byrjun desember var hér til umræðu þingsályktunartillaga þar sem forustumenn Sjálfstæðisflokksins rökstuddu rækilega að það væri ekkert annað í boði en að ganga að pólitískri lausn í málinu. Þetta liggur allt saman fyrir og um það þarf ekkert að deila því að það eru til skjalfest gögn þessu máli til stuðnings.

Varðandi vaxtakjör og frágang þessa máls væri þetta allt ákaflega einfalt (Forseti hringir.) og miklu betra en við erum með í höndunum nú ef við værum að semja við (Forseti hringir.) okkur sjálf, en það erum við ekki að gera. (Gripið fram í.)