138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson gat þess í ágætri ræðu sinni að um væri að ræða gífurlega efnahagslega hagsmuni til framtíðar fyrir þjóðina. Það ætti nú öllum að vera ljóst nú þegar en því miður skortir á að margir stjórnarliðar geri sér grein fyrir þessu. Hugsanlega er þetta afleiðing þess að fólk virðist eiga erfiðara með að gera sér grein fyrir afleiðingum heildarinnar en þegar skoðuð eru afmörkuð atriði. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Getur verið að ríkisstjórnin og meiri hlutinn í þinginu hafi ekki áttað almennilega sig á því að þessar stóru tölur sem sjást á blaði hafa á endanum veruleg áhrif á almenning í landinu, á hverja og eina fjölskyldu? Þegar um er að ræða 100 milljónir kr. á dag í vexti hefur það áhrif á daglegt líf fólks og getur haft veruleg áhrif á hvort við náum okkur yfir höfuð út úr þessari kreppu.

Ég greip niður í fjárlagafrumvarpið, vegna þess að í morgun gagnrýndi hæstv. félagsmálaráðherra ríkisstjórnina harkalega í útvarpsþætti. Hann talaði um þann niðurskurð sem nú stefndi í í sínu ráðuneyti og að hans mati væri sá niðurskurður algjörlega óþolandi. Það voru reyndar ekki hans orð en það lá í orðanna hljóðan, og setti í samhengi við annað. Ef við skoðum hluti eins og t.d. að félagsmálaráðuneytið leggur 28,8 millj. kr. í athvarf fyrir heimilislausa, er það fjórðungur úr degi af Icesave-vöxtum, ekki nema sex klukkutímar. Þetta er atriði sem hefur gríðarlega mikil áhrif fyrir líf fjölda fólks í landinu, sex klukkutíma vextir af Icesave.

Getur verið að það vanti dálítið upp á það hjá ríkisstjórninni að hún setji hlutina í samhengi?