138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:22]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því, líkt og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, að hæstv. fjármálaráðherra er mikið í mun að reyna að koma ábyrgð og sök á Sjálfstæðisflokkinn. Við því er svo sem að búast, þannig má kannski segja að leikreglur stjórnmálanna séu.

En ég sagði í ræðu minni áðan, frú forseti, að þetta mál væri þannig vaxið að við yrðum að hefja okkur upp fyrir flokkakryt og hefðbundin slagsmál og reyna að vinna þjóð okkar það best gagn sem mögulegt er. Ég ætla ekki að elta ólar við hæstv. ráðherra þegar hann talar með þessum hætti. Hann verður bara að eiga það við sig. Hæstv. ráðherra veit miklu betur. Ráðherrann veit nákvæmlega hvernig þessi mál gengu fyrir sig, hvaða skilaboð fóru frá íslenskum stjórnvöldum til hollenskra í kjölfar þess að þetta minnisblað var undirritað, þar sem kom alveg ljóst og skýrt fram hjá íslenskum stjórnvöldum hver afstaðan væri til þessa máls, enda hefur það komið fram rétt eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson benti réttilega á að það er mat lögfræðinga og lögspekinga að ekkert af hálfu íslenskra stjórnvalda sé hægt að nota sem grundvöll eða lagalegan grunn fyrir því að okkur hafi borið skylda til að greiða þetta, ekkert slíkt hafi verið gert. Þetta veit hæstv. fjármálaráðherra, frú forseti, en lætur eins og hann hvorki skilji né viti, en ég veit auðvitað að hæstv. ráðherra veit betur.

Verkefni okkar burt séð frá þessu öllu saman er áfram hið sama, það er að fjalla um þetta mál á Alþingi, kryfja það til mergjar til að koma í veg fyrir að það komi eitthvað upp úr kafinu eftir að við höfum skrifað undir sem er þess eðlis að við höfum ekki áttað okkur á því og skuldbundið þjóð okkar, eða gert einhver þau mistök sem valdi okkur enn frekari klyfjum og enn frekari búsifjum en við ætluðum að yrðu. Það er okkar verkefni. Það var verkefni okkar í sumar og ég tel að Alþingi hafi staðið sína vakt þá og sama verkefni (Forseti hringir.) er núna fyrir framan okkur.