138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Vegna spurningar hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar vil ég segja það að á fundi þingflokksformanna kom fram af hálfu þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar sú beiðni og þau tilmæli til stjórnarmeirihlutans að kallaður yrði saman sérstaklega fundur, og helst hið fyrsta, til að fara yfir þær röksemdir sem Sigurður Líndal og fleiri hafa fært fyrir því að hér gæti verið að myndast sú staða að Alþingi samþykkti frumvarp og gerði að lögum sem stangast á við stjórnarskrána. Ýmis rök sem Sigurður Líndal prófessor hefur bent á gera það að verkum að það er eðlilegt fyrir okkur alþingismenn að staldra við og reyna að leggja mat á þetta. Ég hefði kosið, frú forseti, að slíkt mat hefði legið fyrir áður en öll umræðan gengi fram í 2. umr., sem er auðvitað meginumræðan um frumvarpið. (Forseti hringir.) Það hefði verið til bóta fyrir umræðuna og (Forseti hringir.) jafnvel kannski komið í veg fyrir það að við stæðum uppi með stjórnarskrárbrot að lokum.