138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú er klukkan orðin hálf sex og ég kvarta ekkert undan því að standa í ræðustól eða hlýða á umræður. Það er allt í lagi og ég er alveg til í að vera fram að miðnætti og inn í fullveldisdaginn líka. En það sem mér finnst slæmt er að vita ekki hvort ég verði hérna til klukkan sjö, átta, níu eða tólf eða þrjú eða fjögur sem er svo sem allt í lagi fyrir mig sem slíkan, en ég hef áhyggjur af því merki sem við erum að gefa út í þjóðfélagið. Við erum í rauninni að segja öllu fjölskyldufólki, barnafólki, að það eigi ekki að fara inn á þing. Það er bara þannig. Það er afskaplega slæmt að þetta skuli gerast undir formerkjum stjórnar sem telur sig vera velferðarstjórn og með forseta sem lagði áherslu á það að Alþingi yrði fjölskylduvænt. Það er alveg til háborinnar skammar að geta ekki einu sinni sagt klukkan hálfsex hve lengi þingið stendur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)