138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er mikilvægt að það gleymist ekki að fundartími hér og fundarhald er algerlega í boði stjórnarandstöðunnar. Það er stjórnarandstaðan sem þarf að tala í þessu máli. Samt byrjar hér enn einu sinni hefðbundið væl um það hvað þingmenn eigi bágt að þurfa að vera í vinnunni sinni. (Gripið fram í: Það er enginn að segja...) Til hvers halda menn að Alþingi sé? Það er til þess að vinna mikilvæg verk og það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að Alþingi reynist þeim vanda vaxið að skila því í þágu þjóðarinnar sem þarf að skila fyrir jól og áramót. Það var búið að halda hér fyrir skemmstu 149 þingræður sem stóðu í 1.661 mínútu við þessa 2. umr. Það er búið að flytja 562 andsvör sem tóku 818 mínútur. (Gripið fram í: Enda málið mikilvægt.) Það er búið að ræða 248 sinnum um fundarstjórn í 274 mínútur. (Gripið fram í: Hver kom með þetta inn í þingið?) Þetta er staðan í þessari umræðu núna, frú forseti, (Forseti hringir.) og það er í boði stjórnarandstöðunnar.