138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ef hæstv. fjármálaráðherra hefur talið að það að koma hingað upp undir liðnum um fundarstjórn forseta liðki fyrir þingstörfum er það af og frá. Þessi stórkarlakjaftur sem hann er búinn að temja sér gagnvart þinginu og stjórnarandstöðunni ... (Forseti hringir.) Frú forseti. Ég mun koma að því hvernig ...

(Forseti (ÞBack): Hv. þingmaður gæti orða sinna.)

Ég óska eftir því að þetta gildi um alla, jafnt ráðherra sem þingmenn.

En þessi framkoma hæstv. ráðherra er ekki með þeim hætti að hún liðki fyrir þingstörfum. Hér er verið að spyrja einfaldrar spurningar. Við skulum dúndrast inn í nóttina, það er ekki málið, en við viljum gjarnan fá að vita það frá hendi forseta hversu lengi umræðan á að standa. Þetta er einföld spurning, það er einfalt að svara henni, þetta á ekki að vera svo flókið. Ég hvet hæstv. ráðherra til að vera með okkur áfram inn í nóttina til þess einmitt að koma hingað upp og liðka sem mest fyrir þingstörfum.