138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Virðulegur forseti virtist ekki alveg átta sig á því áðan hvernig það sem ég sagði tengdist fundarstjórn forseta og ég er hér kominn til þess að útskýra það.

Þannig er mál með vexti að skömmu áður hafði hæstv. fjármálaráðherra komið hér í pontu og þulið upp tölfræði sem rökstuðning fyrir því að það væri nóg komið af þessari umræðu, það væri búið að tala um þetta svo mikið að þingið ætti að láta gott heita og ekki ræða þetta áfram. (Gripið fram í.) Virðulegur forseti gerir enga athugasemd við þetta. Þess vegna kem ég hér upp, til þess að setja þetta í samhengi, enda er ég þeirrar skoðunar að hæstv. forseti eigi að vera málsvari þingmanna. Þegar ráðherra kemur hér upp og talar með þessum hætti undir liðnum fundarstjórn forseta, hefði ekki verið úr vegi að hæstv. forseti hefði sagt við hæstv. ráðherra að þingið tæki að sjálfsögðu þann tíma í að ræða hlutina sem hún teldi þurfa á að halda og það væri ekki ráðherranna að segja að það væri komið nóg. (Gripið fram í.)