138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:52]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það gætti nokkurs misskilnings í yfirlýsingu virðulegs forseta áðan þar sem það virtist vera að virðulegur forseti stæði í þeirri meiningu að athugasemdirnar við fundarstjórn forseta væru vegna þess að við héldum að dagskráin væri svo óklár hjá virðulegum forseta. Það sem ég held að allflestir hv. þingmenn hafi verið að tala um er að það liggur fyrir viss hugmynd eða tilboð frá stjórnarandstöðunni um að hleypa í gegn mjög mikilvægum málum sem snerta fjárlagagerðina og að við frestum Icesave-málinu um eina sjö, átta klukkutíma á meðan. Þetta snýst ekki um að (Forseti hringir.) dagskráin sé eitthvað óklár.