138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Herra forseti. Mér er vandi á höndum, ég var búin að skrifa alls staðar „frú forseti“ í ræðuna mína.

Við 1. umr. um núverandi frumvarp um Icesave spurði ég hæstv. fjármálaráðherra beinskeyttrar spurningar. Ég spurði hvort þingið hefði eitthvert svigrúm til að breyta því frumvarpi sem hæstv. ráðherra lagði fyrir þingið. Af svörum hans var ekki annað að skilja en að það væri ekki neitt svigrúm. Við þingmenn verðum því miður að horfast í augu við þann ömurlega veruleika að við búum ekki við raunverulega þrískiptingu valds. Ríkisstjórnin hefur náð meiri hluta um að samþykkja sín boð og eina hlutverk þingmanna meiri hlutans í þessari stöðu, eins og svo oft áður, er að segja „já“ án þess að hafa sjálfstæða skoðun á málefninu.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég skil eiginlega ekki af hverju okkur er gert að taka þátt í þessu leikhúsi fáránleikans. Nenna stjórnarliðar ekki að halda áfram með málið? Nennir þjóðin ekki að beita sér lengur? Er hún búin að gleyma áhrifamætti sínum? Vaknaðu nú, þjóðin mín, og sýndu Bretum og Hollendingum og öðrum þeim sem hafa kúgað okkur til að kyngja einhverju sem við erum ekki fær um að standa undir án þess að enda í eigin landi sem þrælar lánardrottna okkar. Já, vaknaðu.

Við viljum tryggja að þessi ríkisábyrgð á einkaskuld verði skilyrt en ekki óskilyrt eins og Bretar og Hollendingar krefjast. Við verðum að breyta fyrirvörunum í þessu nýja frumvarpi til að tryggja að við borgum ekki vexti ef hér er enginn hagvöxtur. Nú er búið að rífa í sundur öryggisnetið, og okkur þingmönnum ber skylda til að tryggja að hér verði ekki samþykkt eitthvað sem gæti stefnt þjóðarafkomu í voða um ókomna tíð.

Nú hefur það verið staðfest að enginn áhugi er hjá formanni fjárlaganefndar til að breyta þessu frumvarpi, enginn áhugi á að tryggja að við getum staðið skil á þessu. Mér finnst furðulegt að taka málið inn í nefnd með slíku fororði. Mér finnst það virðingarleysi gagnvart því fólki sem kalla á fyrir nefndina til að kynna því það sem betur má fara og hvað ber að varast. Ég skora á alla nefndarmenn fjárlaganefndar, stjórnarliða sem og minni hluta, að leggja við hlustir, ómengaðir af valdapólitík. Ég skora á nefndarmenn að hlusta handan fyrir fram gefinnar niðurstöðu, og kannski komast hv. nefndarmenn að þeirri niðurstöðu að það sé með sanni nauðsyn að skapa svigrúm til breytinga. Það er með sanni nauðsyn. Það er bara ekki hægt að leggja fram frumvarp til laga sem nú er sannað að er með galla sem jaðra við stjórnarskrárbrot. Það er ekki hægt að leggja slíkt fram með því skilyrði að því verði ekki breytt.

Er það ekki fullkomlega óábyrgt að samþykkja slíkan skuldaklafa á herðar þjóðarinnar án þess að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hengja ekki þennan myllustein um háls þjóðarinnar? Eigum við að vera leiguliðar í eigin landi, er það hugmynd hæstv. ríkisstjórnar um norrænt velferðarkerfi?

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra, sem nota bene er ekki hérna, einfaldrar spurningar: Getum við staðið undir því að tekjuskattur tæpra 80.000 skattborgara þessa lands fari í það eitt að borga vexti af Icesave ár hvert? Það hefur komið í ljós að hægt er að teygja lánið um ókomna tíð og það þýðir einfaldlega að vextirnir halda áfram að hlaða utan á sig. Þær eignir sem vísað er til, sem skilanefnd Landsbankans lúrir á og segir að við getum fengið nánast allar upp í þessa skuld, eru huldueignir sem enginn hefur fengið að sjá hverjar eru — nema skilanefndarmenn. Ekki einu sinni hæstv. fjármálaráðherra hefur fengið að sjá eignasafnið.

Því var haldið fram í upphafi að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefðu fengið að sjá þetta eignasafn, en Rozwadowski, lénsherrann okkar, bar það af sér í bréfi sem hann sendi mér. Það er ljóst að enginn, ekki nokkur maður — nema þeir sem eru í skilanefnd Landsbankans — veit hvað liggur að baki stærstu skuldbindingu þjóðarinnar. Ég veit ekki með hv. þingmenn en mér finnst þetta algjörlega óásættanlegt.

Ég tek fram að ég stend ekki í því í dag að ræða um þetta mál nema vegna þess að mér er ekki sama hvernig unnið verður úr því. Ég er ekki í þessum ræðustól til þess eins að vera leiðinleg við vesalings stjórnarliðana. Ég er hérna vegna þess að ég get ekki annað en gert allt sem í mínu valdi stendur til að vekja athygli á því sem ég verð að viðurkenna að veldur mér miklum og þungum kvíða. Ég skora á alla þingmenn að finna aftur þann sérstæða og merkilega tón sem sleginn var í sumar, tón samstöðu. Það er það sem allir sem ég tala við þrá að heyra. Þau þrá að heyra að við séum að berjast fyrir þeirra hagsmunum. Nú er ekki tími fyrir átök, heldur samstöðu.

Það er ljóst að það gengur ekki að samþykkja yfirgang framkvæmdarvaldsins. Sýnum nú að þingið sé það sem það var skapað til að vera, æðsta stofnunin sem semur vönduð lög sem framkvæmdarvaldið fer eftir í fullkominni auðmýkt. Ég veit að þetta eru dálitlir draumórar en við getum a.m.k. reynt.

Gefumst ekki upp, hvorki þing né þjóð, höldum reisn okkar og sýnum að við látum ekki beygja okkur þó að Golíat sé vissulega stór. Gleymum ekki hver það var sem vann í þeim slag. Til þess að vinna þetta efnahagslega stríð sem við stöndum frammi fyrir verðum við að hætta að berjast innbyrðis og fara að vinna saman. Verið nú svo góð, kæru samþingmenn úr stjórnarröðum, að hlusta á þá einlægu ósk okkar að taka ekki þeim afarkostum sem okkur eru gefnir varðandi Icesave. Við verðum að laga frumvarpið svo við tökum ekki svona mikla áhættu.

Ég óttast það mjög mikið að grunnstoðir samfélags okkar bresti ef þetta verður samþykkt. Ég óttast að almenningur flýi landið okkar eða hreinlega gefist upp. Ég óttast að við getum ekki staðið við þessar skuldbindingar og þess vegna væri langheiðarlegast að horfast í augu við þá staðreynd að tæknilega séð getum við alls ekki staðið við allt sem við erum að lofa að gera. Við getum ekki borgað skuldir okkar án þess að skerða kjör næstu kynslóða þannig að samfélag það sem við búum við og forfeður okkar lögðu blóð og svita í að gera að betra samfélagi en flestir jarðbúar eiga kost á að búa við. Við gerum það að engu og verðum enn á ný leiguliðar í okkar eigin landi.

Ef þessi ræða verður túlkuð sem málþóf verður svo að vera. Ég stend hér og ákalla þjóðina að ef það er rétt að hún vilji fá að kjósa um þetta afdrifaríka mál kalli hún eftir því með afgerandi hætti. Ég skora á alla að fara á vef indefence.is til að kynna sér hvað slík þjóðaratkvæðagreiðsla felur í sér. Hinn ágæti forseti lýðveldisins skrifaði undir núgildandi lög með yfirlýsingu um hve góðir fyrirvararnir væru, sem því miður er búið að breyta svo mikið að þeir eru aðeins skuggamynd, og öryggisnetið sem við vorum öll harla stolt yfir í sumar hefur að engu verið gert.

Það er fjarri lagi að við úr minni hlutanum sem höfum staðið hér og talað um þetta mál höfum haldið því fram að allir fyrirvararnir hafi verið gerðir ónýtir. Öryggisnetið sem var ofið um þjóðina hefur verið rifið og tætt í sundur þannig að við siglum í raun og veru á vit dapurlegrar framtíðar. Ég er ekki að ýkja, ég er búin að kynna mér sögu þjóða sem hafa farið í gegnum prógramm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég hef farið í gegnum sögu þjóða sem hafa farið mjög illa út úr kreppum en það er engin kreppa neins staðar samanborið við okkar. Hún er svo gríðarleg að fólk er ekki enn farið að skilja hvað þetta felur í sér. Hvað gerir það að tekjuskattur 150.000 Íslendinga fari í að greiða vexti af erlendum skuldum? Ég óska eftir svörum frá hæstv. fjármálaráðherra um hvaða áhrif það hefur á grunnstoðir okkar. Ég óska eftir svörum en hæstv. fjármálaráðherra getur ekki einu sinni sýnt okkur þá virðingu að vera í salnum.

Við skulum muna að Icesave er ekki málefni ríkisstjórnarinnar. Icesave er málefni allrar þjóðarinnar, og sýnum þjóðinni þá virðingu að taka þetta ekki óbreytt inn og heimta að það fari óbreytt í gegnum þingið.