138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og varnaðarorð. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem hún kom inn á í ræðu sinni um að í raun og veru mætti hvorki breyta punkti né kommu í þessu máli sem við erum að fjalla um núna. Ég hef haft efasemdir um það og leitt hugann að því hvort það gæti verið þannig að málið hafi fyrst verið kynnt í þingflokkunum og síðan eftir það hafi verið gefið grænt ljós á að það mætti halda áfram með málið og þar með samþykkja það. Eftir að við fórum að fjalla um það hafa komið margar ábendingar um hvað það felur í sér, ábendingar frá Sigurði Líndal, Ragnari H. Hall, Indefence og fleiri góðum einstaklingum.

Við upplifðum það hér þegar við tókum málið fyrst til umfjöllunar, í júníbyrjun, að þá var upplýst af einum hv. þingmanni að margir hæstv. ráðherrar hefðu ekki einu sinni lesið samninginn áður en þeir gáfu grænt ljós á að samþykkja hann. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að eitthvað svoleiðis sé hugsanlega á ferðinni núna? Þingmennirnir höfðu a.m.k. þá ekki haft tíma til að kynna sér þá niðurstöðu sem lá fyrir með þessa samninga. Deilir hv. þingmaður ekki með mér áhyggjum af að þetta gæti vel hugsast?

Síðan langar mig að spyrja líka hv. þingmann hvers vegna efnahagslegu fyrirvararnir um að við greiddum 6% af vexti hagvaxtar — (Forseti hringir.) ég skil ekkert í klukkunni, hæstv. forseti.

(Forseti (ÁÞS): Hv. þingmaður er beðinn velvirðingar á því að það er smábilun í klukkunni. Ég veit ekki hvort neftóbakið hefur ratað þangað.)

Nei, ekki mitt, það er kannski þitt.

(Forseti (ÁÞS): Ég gef þingmanninum færi á að ljúka máli sínu.)

Mig langar þá að klára spurninguna til hv. þingmanns. Það lá fyrir að við ætluðum að borga 6% af vexti hagvaxtar til að standa undir skuldbindingunni og ég spyr: Hvers vegna gera þá Bretar og Hollendingar kröfu um að við gerum þetta með öðrum hætti? Hafa þeir kannski jafnmikið álit á útreikningum Seðlabankans og margir stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherrar?