138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessa spurningu. Ég kynnti mér vel það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið að gera og tek sem dæmi nýlega sögu um það hvernig fór hjá Jamaíka. Þeir misstu sjálfræðið yfir landbúnaði sínum á tveimur árum. Mjög gamalgróinn og góður landbúnaður sem var eins sjálfbær og mögulegt er er ekki lengur til á Jamaíka. Ég hvet fólk til að kynna sér hvað gerðist þar. Allir þekkja söguna um Argentínu og allir þekkja sögurnar um Asíulöndin.

Ég bara spyr: Ef það er svona gott stjórntæki að hafa stýrivexti háa, af hverju eru þá ekki Bandaríkjamenn með stýrivexti háa, þeir eru með stýrivexti í núlli? Eru einhver önnur lögmál hjá okkur en þeim? Það held ég ekki, við erum í mjög áþekkum vandræðum.

Við erum ekki búin að stjórnarskrárbinda það að auðlindirnar séu alveg örugglega í eigu þjóðarinnar og ég hef þungar áhyggjur af því að við munum glata jafnvel öllu ef við förum ekki varlega. Við þurfum að fara varlega varðandi samninginn út af Icesave. (Forseti hringir.) Það er verið að leggja skuldbindingar á þjóðina sem er alveg öruggt að hún getur (Forseti hringir.) ekki staðið undir.