138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka spurninguna. Það er rétt að þrískipting valds og umbætur á þessum vinnustað er mér mikið hjartans mál því að það hefur áhrif á allt samfélagið. Því vandaðri vinna sem hér fer fram þeim mun minni líkur á að stoppa þurfi í eilíf göt og bæta úr mistökum eins og við þekkjum öll að henda. Ég hef orðið fyrir svolitlu áfalli að koma hingað inn. Ég hélt að nú væri lag að breyta, að fara handan leynihyggjunnar. Í raun og veru er meiri leynihyggja núna en var hjá fyrrverandi ríkisstjórn og hinum á undan. Ég þekki það náttúrlega ekki nógu vel en byggi það á því sem maður hefur heyrt frá fólki sem starfaði hér á þeim tímum og þá er ég ekki bara að tala um þingmenn minni hlutans.

Ég skora á þingmenn meiri hlutans að beita sér fyrir því að þingið hafi einhver völd, að þið séuð ekki bara kassadömur. Það er mjög mikilvægt að allir þingmenn beiti sér fyrir því, líka þið, hv. þingmenn. Það verða engar breytingar nema við gerum þær. Viljum við breytingar? Vilja hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans breytingar á vinnulagi þingsins? Þið vilduð það áður en þið komust í þessa stöðu. Af hverju vilja hv. þingmenn það ekki enn þá? Ég skil ekki hvað gerist þegar fólk fær völd. Tapar það áttum? Þetta hlýtur að vera eitthvað sem hentar okkur öllum, að hafa betra vinnulag hérna.

Ég vona að fólk komist út úr sínum huliðshjúp og verði aftur samkvæmt sjálfu sér.

(Forseti (ÁÞS): Forseti minnir þingmann á að ávarpa þingmenn ekki í 2. persónu.)