138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Enn ræðum við þetta makalausa mál sem Icesave-frumvarpið er en eins og við munum öll samþykkti Alþingi Íslendinga löggjöf um þetta mál, m.a. í ítarlegum fyrirvörum þann 28. ágúst sl. Í framhaldinu fór viðræðunefnd stjórnvalda til viðræðna við Breta og Hollendinga og útkoman varð sú sem við ræðum hér. Í framhaldinu hófst merkilegur spuni, þ.e. eftir að nefndin kom heim eftir seinni viðræður við Hollendinga og Breta. Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hélt leynifundi með félögum sínum í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Fjölmiðlar gengu mjög á leiðtoga Vinstri grænna og voru spurulir um hvernig gengi að ræða við þingflokkinn. Síðan kom stóridómur: Við höfum náð meiri hluta fyrir þessu máli, það er stuðningur við þetta mál eins og það er innan þingflokka ríkisstjórnarinnar, og þá virtist málið vera í höfn, a.m.k. af hálfu stjórnarflokkanna og hæstv. ráðherra. Málið er síðan lagt til málamynda til meðferðar í fjárlaganefnd þingsins, sem bað um umsögn frá efnahags- og skattanefnd þar sem ég á sæti. Þar voru málamyndafundir haldnir. Okkur var neitað um að kalla til gesti til þess að ræða þetta mál sem hefur breyst í öllum grundvallaratriðum frá 28. ágúst. Og bara þjóðhagslegu forsendurnar með breytingu á þeim fyrirvörum sem Alþingi samþykkti með lögum þann 28. ágúst gera það að verkum að við erum að tala um allt annað mál í dag en þá var.

En hverju áorkaði hæstv. fjármálaráðherra í gegnum þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Nær skilyrðislausum stuðningi við það að málið skyldi fara í gegnum þingið óbreytt, sama hvað tautaði og raulaði. Og verklagið var eftir því.

Málið var tekið út úr fjárlaganefnd og málið var tekið út úr efnahags- og skattanefnd án þess að við í stjórnarandstöðunni fengjum tækifæri til að kalla til okkar helstu aðila í samfélaginu á sviði lögfræði og hagfræði til að fara yfir þetta viðamikla mál. Og við erum ekkert að ræða um neitt smámál. Við erum að tala um að bara vextirnir af þessum skuldbindingum miðað við 5,55% verði 300.000.000.000 kr., 300 milljarðar, að lágmarki, herra forseti.

Með virðingu þingsins í huga skammast ég mín ekki fyrir það að ræða það verklag að nefndir þingsins hafi ekki fengið tækifæri út af ofurráðherraræði ríkisstjórnarinnar yfir stjórnarmeirihlutanum, að við skyldum ekki hafa fengið að kalla til okkar helstu sérfræðinga til að fara yfir þetta eitt stærsta mál sem hefur komið inn í sali Alþingis. Það er með ólíkindum.

Frú forseti. En hvað hefur gerst eftir að þetta mál (Forseti hringir.) var tekið út úr —

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður þingmanninn að ávarpa forseta með viðeigandi hætti.)

Fyrirgefðu, ég er ekki enn kominn yfir þessa breytingu sem átti sér stað í forsætisnefnd þingsins þegar karlmaður fékk þar sæti á nýjan leik og bið herra forseta afsökunar á þessu. Við hljótum að fara að læra þetta hérna smám saman. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta hendir mig.

Herra forseti. Hvað hefur gerst eftir að þetta mál var rifið út úr efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd þingsins? Jú, Sigurður Líndal lagaprófessor hefur komið fram með miklar efasemdir um að það frumvarp sem við ræðum hér megi samþykkja með hliðsjón af stjórnarskránni og að okkur þingmönnum sem höfum svarið eið að stjórnarskrá íslenska lýðveldisins með því að taka sæti á þinginu sé stætt á því án frekari skoðunar að fara yfir þetta mál. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég hef lesið eftir Sigurð Líndal því að ég gæti þá fengið á mig að ég væri að flytja hér einhverja málþófsræðu en mig langar að benda á grein eftir lögmanninn Ragnar Hall sem er mjög virtur lögfræðingur í okkar samfélagi, grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þessi ágæti lögmaður tekur það sérstaklega fram að hann sé ekki félagi í stjórnmálaflokki. Mig langar að grípa aðeins niður í þessa ágætu grein, með leyfi herra forseta:

„Þetta mál er þó af þeirri stærðargráðu að við getum ekki leyft okkur að ljúka meðferð þess án þess að hugað verði að þessu atriði. Þegar aðild að EES var í undirbúningi hér á landi var nefnd sérfræðinga falið að semja ítarlega og rökstudda úttekt á því hvort fyrirliggjandi samningsdrög færu í bága við stjórnarskrána. Málið var ekki afgreitt á Alþingi fyrr en niðurstöður þessara sérfræðinga lágu fyrir. Ég er sömu skoðunar og Sigurður Líndal um það, að hagsmunir sem hér eru í húfi séu slíkir að verulegur vafi sé á því að efni Icesave-frumvarpsins sé samþýðanlegt stjórnarskránni. Ég skora á alþingismenn að láta fara vandlega yfir það atriði áður en þetta frumvarp verður tekið til endanlegrar afgreiðslu.“

Ragnar Hall og Sigurður Líndal lagaprófessor skora á okkur þingmenn, ekki bara okkur í minni hlutanum sem viljum skoða þetta mál betur, heldur líka meiri hlutann, að taka til sérstakrar skoðunar þau mál er snerta ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins sem við höfum svarið eið að. Þingmenn stjórnarliðsins hafa ekki látið svo lítið að koma hér upp til að ræða þessi mál við okkur í minni hlutanum þó að sjálf stjórnarskrá lýðveldisins liggi undir. Þessi vinnubrögð í þinginu, að rífa málið út með þessum hætti, án þess að það hafi fengið tilhlýðilegan undirbúning, eru ólíðandi. Við þingmenn gætum örugglega verið búin nú þegar að klára þetta vafaatriði á vegum fjárlaganefndar þingsins en það var ekki vilji til þess. Þess vegna stöndum við hér og ræðum þau mál sem enn standa út af borðinu.

Af því að ég á sæti í efnahags- og skattanefnd langar mig að ljúka ræðu minni á því að harma það að við skyldum ekki hafa fengið færi á því að fara yfir vaxtaþáttinn. Daniel Gros hefur nefnt það að Bretar hafa lánað sínum innlánstryggingarsjóði fjármagn með 1,5% vöxtum á meðan við sættum okkur við lán með 5,55% vöxtum. Hvað þýðir þetta fyrir almenning, fyrir ríkissjóð Íslands, í milljörðum króna? Það er talað um að þetta geti munað allt að 200 milljörðum kr. Ef við tökum þær áætlanir sem ríkisstjórnin hefur uppi varðandi skatta á heimilin og fyrirtækin er verið að tala um 50 milljarða kr. á næsta ári í auknar skattálögur. Margir efast um að heimilin og atvinnulífið muni þola þá gríðarlegu skattahækkun. En sú upphæð og sá munur á viðmiðunum sem Daniel Gros hefur nefnt er hátt í 200 milljarðar sem eru skattahækkanir ríkisstjórnarinnar á almenning og fyrirtæki í heil fjögur ár. Við hljótum að spyrja: Er það málþóf að kalla eftir því að efnahags- og skattanefnd Alþingis komi saman til að fara yfir þetta álitamál?

Í öðru lagi hefur sú spurning komið fram m.a. hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni hvort það sé mögulega hagstæðara fyrir okkur að miða þennan lánasamning við breytilega vexti en ekki fasta. Í ljósi þess að allar líkur eru á því að breytilegir vextir verði lágir næstu 2–4 árin, akkúrat þegar við erum að borga niður þessar skuldir hvað mest með því að greiða út úr lánasafni Landsbankans, er það mun hagstæðara ef marka má þær úttektir sem hafa verið gerðar á því að miða við breytilega vexti. Það gæti munað einum 100 milljörðum kr. Erum við í alvöru talað ekki hér til að standa vörð um hagsmuni íslensks almennings, að reyna að gera það besta úr þessu máli sem hægt er?

Við í minni hlutanum í þinginu stöndum hér og höfum komið fram með marga nýja vinkla í þessu máli sem fengust ekki skoðaðir í meðförum fjárlaganefndar og efnahags- og skattanefndar. Það er dapurlegt og ég frábið mér þann málflutning að við stöndum í málþófi þegar við ræðum um skuldbindingar sem eiga að leggjast á herðar íslensks almennings til næstu áratuga upp á hundruð milljarða og ég skil ekki það langlundargeð sem margir stjórnarþingmenn hafa í sér til þess að koma ekki hingað og ræða þessi stóru mál við okkur hér á þessum vettvangi.

En ég vona, herra forseti, að við fáum tækifæri til þess í efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd þingsins að fara yfir þessa nýju vinkla sem ég hef nefnt hér. Þingmenn Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) hafa talað mikið um að ekkert nýtt hafi komið fram í þessari umræðu. (Forseti hringir.) Ég held að þeir hv. þingmenn hafi ekki mikið verið að hlusta á það sem (Forseti hringir.) við höfum lagt til málanna.