138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Nei, þetta fékkst því miður ekki rætt í efnahags- og skattanefnd, þ.e. það sem Daniel Gros hefur nefnt varðandi það sem við gætum sparað ef við værum meðhöndluð á sama hátt og innstæðutryggingarsjóður Breta hvað vaxtamuninn varðar. Það er alveg hárrétt, það munar 200 milljörðum króna. Það mætti reka Landspítala – háskólasjúkrahús, sem er einn stærsti vinnustaður landsins, í sjö ár. Hvað ætlar ríkisstjórnin að spara sér á barnafjölskyldum, 2.000 barnafjölskyldum í landinu sem nú eiga von á barni? Um 1,2 milljarða? Ja, það mætti hætta við þann niðurskurð í 180 ár því til samanburðar. Við erum að tala um svo gríðarlega fjárhæðir í þessu samhengi að venjulegt fólk skilur ekki töluna 200 þúsund milljónir króna. Þetta eru svo háar upphæðir. Og svo eru hv. nefndarmenn í fjárlaganefnd að velta því fyrir sér hvort eigi að spara 3 milljónir á heilbrigðisstofnuninni á Hvammstanga, við gætum haldið áfram. Þetta eru svo gríðarlegar upphæðir og við verðum að fara að átta okkur á því af hvaða stærðargráðu þetta mál er.

Það að þetta skyldi ekki hafa fengið umræðu í efnahags- og skattanefnd, sérstaklega þessi vaxtamunur, er gríðarlega alvarlegt mál — nú sé ég að tíminn er stopp hjá mér í pontu.

(Forseti (ÁÞS): Forseta er ljóst að það er bilun í klukkunni í augnablikinu.)

Má ég þá tala endalaust?

(Forseti (ÁÞS): Þingmaðurinn á eftir um 40 sekúndur.)

Þakka þér fyrir, herra forseti.

Ég tek einfaldlega undir það sem kom fram hjá hv. þingmanni. Við höfum verið að leggja á okkur mjög mikla vinnu við að kanna sérstaklega efnahagsþáttinn, vaxtaþáttinn. En það höfum við þurft að gera með því að kalla til sérfræðinga utan nefndasviðs. Við höfum þurft að gera það í eigin persónu vegna þess að efnahags- og skattanefnd þingsins, meiri hlutinn hennar, vildi ekki að við mundum skoða þessi mál frekar. Ég hefði haldið að það væri alla vega einnar messu virði að fara yfir þetta (Forseti hringir.) gríðarlega stóra hagsmunamál.