138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti.

(Forseti (ÁÞS): Enn er örlítið ólag á klukkunni í ræðupúltinu en það verður gefið til kynna þegar 30 sekúndur eru eftir.)

Ég þakka herra forseta fyrir og ég er þess fullviss að þetta sé nú ekki skipulagt af hálfu yfirstjórnar þingsins til þess að gera okkur umræðuna erfiðari og er þess fullviss og þakka herra forseta fyrir.

Varðandi skuldaþol þjóðarinnar og það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson reifuðu í áliti sínu þá vekur það mikla athygli mína við þessa efnismiklu umræðu að hv. þingmenn skuli ekki hafa komið til umræðunnar til að reifa sjónarmið sín. Það var með ólíkindum og mér var í raun og veru brugðið þegar hv. þingmenn meiri hlutans, að meðtöldum hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Lilju Mósesdóttur, skyldu hafa staðið að því að taka málið út úr nefnd í ljósi þessa vafaatriða. Við óskuðum ítrekað eftir því að fá fleiri sviðsmyndir frá Seðlabanka Íslands um þjóðhagslegar forsendur og hvernig skuldaþol þjóðarinnar gæti þróast á næstu árum. Mig minnir að hv. þm. Þór Saari hafi getið þess í nefndaráliti sínu að gert er ráð fyrir árlegum afgangi á vöruskiptajöfnuði upp á 163 milljarða. Á þessu ári þegar krónan er í sögulegu lágmarki er vöruskiptajöfnuðurinn einungis nokkrir tugir milljarða, þegar allar aðstæður ættu að vera hagstæðar í þeim efnum að ná slíku fram. Ég held því að þær forsendur sem Seðlabankinn hefur gefið sér er varða þessar þjóðhagsstærðir séu einfaldlega rangar. En því miður fengum við ekki tímarúm til þess að fara betur yfir það með sérfræðingum Seðlabankans, enda er allt málið þannig búið að það á greinilega að keyra það í gegnum þingið, sama hvað tautar og raular, sama hvað efnahagslegir (Forseti hringir.) ráðgjafar úti í bæ ráðleggja okkur og hvað þá (Forseti hringir.) lögfræðingar og háskólaprófessorar sem tala um stjórnarskrána í þessu samhengi.