138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór yfir margt í ræðu sinni, m.a. umræðuna hér í þinginu og vinnuna í þingnefndum. Ég verð að segja eins og er að það hefur komið mér á óvart að sjá hvernig menn hafa höndlað þetta mál. Ég var að horfa á fréttir áðan þar sem hæstv. fjármálaráðherra sagði, sem er í rauninni alveg stórmerkilegt, með leyfi virðulegs forseta:

„Sumar ástæður þess að Icesave-málið verður að klárast sem fyrst í þinginu eru ekki þess eðlis að hægt sé að greina frá þeim í ræðustól Alþingis.“

Síðan horfi ég eins og aðrir landsmenn á fréttir ríkissjónvarpsins og þá ásakar hann stjórnarandstöðuna að tala Ísland niður í ruslflokk hjá matsfyrirtækjum og síðan að matsfyrirtækin séu öll að bíða eftir þessu. Hann sagði þarna hluti sem ég hef ekki heyrt hann segja í ræðustól Alþingis. Hæstv. ráðherra talar líka um að hann efist um getu Alþingis til þess að höndla málið, ekki hér í ræðustólnum, heldur við fjölmiðla. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er nú búinn að taka þátt í umræðunni um þetta, ekki bara núna, heldur líka í sumar, hvað honum finnst um þessi ummæli. Ég verð nú að segja eins og er að mér þykir þetta ekki mjög lýðræðislegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það er til lítils að tala um virðingu Alþingis og hvað það skipti miklu máli að löggjafinn sé öflugur og taki á málum ef menn geta ekki skipst á skoðunum hér og hlaupa í fjölmiðla og klaga stjórnarandstöðuna.