138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Sem dæmi um þetta ótrúlega mál minnist ég þess þegar formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stóð hér upp á miðvikudegi í fyrirspurnatíma og spurði hæstv. fjármálaráðherra að því hvort samkomulagið vegna Icesave væri brátt í höfn. Hæstv. ráðherra kom hér upp og sagði svo ekki vera. Á föstudeginum var tilkynnt að búið væri að ná niðurstöðu á milli Íslendinga og þessara þjóða. Ég ætlast nú ekki til þess að þær viðræður hafi tekið einn dag. Það var mikið búið að ganga á enda var maður búinn að heyra ýmislegt um það. En hæstv. fjármálaráðherra gat ekki greint okkur frá því að niðurstaða væri væntanleg í þeim efnum.

Þegar hæstv. ráðherra efast um getu Alþingis til þess að takast á við þetta mál vil ég bara minna á hvaða árangur náðist hér þverpólitískt á sumarmánuðum til þess að bæta þetta hörmulega mál eins og það kom frá hæstv. ráðherra á sínum tíma. Ég tel að til að mynda að hv. efnahags- og skattanefnd sé skipuð mjög hæfu fólki til þess að takast á við úrlausnarefni sem þessi. Ég hef orðið vitni að því að sumir ágætir þingmenn þar hafi getað skákað sumum embættismönnum hvað varðar vitneskju um fræðin og hagfræðileg álitaefni þannig að það er engin minnimáttarkennd í okkur gagnvart því að takast á við þetta mál. En það grátlega er í þessu máli að þrátt fyrir hæfni þessara þingmanna, sama hvar í flokki menn standa, það er hæfileikafólk í öllum flokkum, er ekki leitað til þingsins. Það á að keyra þetta mál í gegn án umræðu, án þess að við getum kallað fyrir gesti á fundi nefndanna. Það á bara að klára þetta með þögninni af hálfu stjórnarliðsins. Ég efast um að sagan muni dæma þá stjórnarliða sem hafa setið hjá í þessari umræðu í einu stærsta hagsmunamáli sem hefur blasað við þjóðinni og þinginu í lýðveldissögunni. Ég tel að sagan (Forseti hringir.) muni dæma þá hv. þingmenn vel í þessu máli.