138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta tengist nefnilega fundarstjórn forsetans fyrr í dag. Á fréttavefnum eyjan.is fer hæstv. fjármálaráðherra mikinn og það er vitnað til þess í dag hvað hann hefur verið að segja. Hann segir líka m.a. á visir.is að hann efist um að Alþingi ráði við endurreisn efnahagslífsins. Er þetta ekki sami ráðherra og situr í þeirri sömu ríkisstjórn sem sérstaklega boðaði nýja verkstjórn? Síðan er haldið áfram og þar segir, og það er það sem ég vil sérstaklega vekja athygli forseta á, að hann hafi útskýrt, hann sagði það hér í ræðu, rækilega fyrir forustumönnum stjórnarandstöðunnar hvaða ástæður liggja þar að baki og sumar séu þess eðlis að það sé hæpið að fara með þær í ræðustól. Og viti menn, hann gat ekki rætt málin inni í þingsal, hæstv. fjármálaráðherra, en hann er tilbúinn eins og alltaf að segja allt og alla hluti við fjölmiðla. Í öllu þessu máli (Forseti hringir.) eru þingmenn alltaf síðastir til að heyra úr munni fjármálaráðherra (Forseti hringir.) um hvað málið snýst, en hæstv. fjármálaráðherra gat talað tæpitungulaust við fjölmiðla, hann getur ekki gert það í þessum sal.