138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:20]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem upp til að taka undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um orð sem hæstv. fjármálaráðherra lét falla hér og snúa að fundarstjórn forseta að því leyti að mér finnst þar vegið með mjög ómaklegum hætti að virðingu Alþingis sem ég veit að hæstv. forseta er annt um. En það að hæstv. fjármálaráðherra vogi sér að láta að því liggja og efist um virðingu og getu hins háa Alþingis til að sinna starfi sínu, finnst mér algjörlega með ólíkindum. Ég segi það hér að ég sór eið sem þingmaður og tek hann mjög alvarlega og mér finnst með ólíkindum að hæstv. fjármálaráðherra, sem í raun er ekki að gera neitt annað en að opinbera vanmátt ríkisstjórnarinnar, ætli sér að klína því með ósmekklegum hætti á hið háa Alþingi. Ég óska eftir að frú forseti (Forseti hringir.) taki þetta mál til skoðunar.