138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með hv. þingmönnum Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Ragnheiði Elínu Árnadóttur um þær áhyggjur sem þessi ummæli hæstv. fjármálaráðherra valda okkur þingmönnum. Ég hvet hæstv. forseta til að beita sér fyrir því að þetta mál verði skoðað vegna þess að það er ekki virðingu Alþingis samboðið að láta það líðast að svona ummæli gangi í gegn órædd og óskoðuð. Við höfum unnið hér hörðum höndum í allt sumar og allt haust að því að reyna að koma einhverjum böndum á efnahagslífið. Það er þess vegna fjarri lagi, frú forseti, að það sé hagsmunum Íslendinga fyrir bestu að einn háttsettasti stjórnmálamaður á landinu í dag hagi sér með þessum hætti gagnvart þinginu.