138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Fyrr í dag var ég beðin um af hálfu forseta að gæta orða minna af því að ég sagði að hæstv. fjármálaráðherra væri með stórkarlakjaft í garð þingsins. Það er síðan dæmigert að við þurfum að lesa um skoðanir hæstv. fjármálaráðherra á þinginu, hann getur ekki sagt þær hérna inni, hann þarf náttúrlega að segja þær við fjölmiðla. Hann talar niður til þingsins með því að segja að þingið ráði ekki við hlutverk sitt. En ég man alveg umræðuna þegar við vorum að breyta þingsköpunum, þá vorum við sjálfstæðismenn í stjórnarmeirihluta, og hvað fengum við þá að heyra frá stjórnarandstöðunni? Að með breytingu á þingsköpunum væri verið að rýra rétt stjórnarandstöðunnar til að halda uppi öflugum málflutningi. Svo þegar stjórnarandstaða dagsins í dag nýtir þennan rýra rétt sinn til að halda uppi málflutningi til að verjast í Icesave-dellunni og standa vaktina er farið að tala niður til þingsins, er farið að tala um að við stundum málþóf, er farið að tala um við þingmenn ráðum ekki við hlutverkið af því að allt í einu er (Forseti hringir.) hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon orðinn fjármálaráðherra. Ég hefði talið rétt að hæstv. forseti segði fjármálaráðherra að gæta (Forseti hringir.) orða sinna innan sem utan þingsalar.