138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:40]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að ég, eins og svo oft áður í þessari umræðu, taki undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um að hæstv. fjármálaráðherra hljóti að hafa mismælt sig.

Mér finnst þetta mjög alvarlegt án alls gríns með þessi mismæli. Mér finnst þetta mjög alvarlegt og það að fjármálaráðherra Íslands segi þetta vitandi það — hvert fer þetta? Þetta er þýtt, þetta fer til allra sem vilja heyra þetta, þar á meðal til viðsemjenda okkar. Hvað er hæstv. fjármálaráðherra að meina með þessum ummælum? Hvað er það þá sem hæstv. fjármálaráðherra vill að komi í staðinn fyrir hið háa Alþingi? Er hæstv. fjármálaráðherra að boða hér eitthvert einveldi? Hvað er það sem hæstv. fjármálaráðherra er að reyna að fá fram með svona ummælum?

Ég óska eftir því, frú forseti, að forseti beiti sér fyrir því að kannað verði hvað hæstv. fjármálaráðherra meini með þessu.