138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir góða ræðu sem var yfirgripsmikil og upplýsandi um þetta stóra og mikla mál, eitt stærsta mál Íslandssögunnar, eins og svo fjölmargir hv. þingmenn hafa talað um.

Okkur stjórnarandstöðuþingmönnum hefur verið legið mjög á hálsi hér í þau fáu skipti sem stjórnarþingmenn hugsa sér að mæla í þessu stærsta máli Íslandssögunnar fyrir það að við séum ekki menn lausna, að við tölum bara málið niður og höfum engar hugmyndir. Þess vegna er mjög mikilvægt að það komi skýrt fram hvaða hugmyndir við í stjórnarandstöðunni höfum og hvernig við sjáum fyrir okkur að þetta mál verði afgreitt úr þinginu.

Mig langar því til að spyrja hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar í fyrsta lagi hver hann telur viðbrögð Breta og Hollendinga verða, verði þetta frumvarp fellt, og síðan hvort lögin sem Alþingi samþykkti í sumar, sem talað hefur verið um sem fyrirvaralögin, standi ef slíkt yrði uppi á teningnum.

Frú forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að við sem hér störfum horfum af ábyrgð á þetta verkefni okkar og sinnum vel því verkefni að endurreisa efnahagslífið. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra skotið hörðum skotum inn á þingið til okkar þingmanna allra sem hér sitjum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, þar sem hann gaf það í skyn í blaðaviðtali í dag að Alþingi Íslendinga ráði ekki við það verkefni að endurreisa efnahag landsins. Mig langar að vita hvort hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sé sáttur við að einn æðsti (Forseti hringir.) ráðherra þjóðarinnar tali með þessum hætti um Alþingi.