138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru þrjár meginspurningar sem var beint til mín. Í fyrsta lagi er það algjörlega óforsvaranlegt að mínu viti að ráðherra láti út úr sér slík orð jafnvel þó að hann hafi sagt að hann efist um getu Alþingis. Framkvæmdarvaldið starfar í umboði Alþingis og á ekki að tala niður til þingsins og ég trúi því ekki að hæstv. utanríkisráðherra sem hér gekk í salinn, hafi nokkurn tíma látið álíka orð frá sér fara.

Varðandi lögin í sumar, standa þau? Þau hljóta að standa nema þeim verði þá breytt með öðrum hætti eða þau felld úr gildi. Þrátt fyrir að mér hafi ekki fundist gengið nógu langt í þeirri lagasetningu — mér fannst vanta töluvert upp á að fyrirvarar og það sem samþykkt var væri nógu skýrt og ákveðið — er alveg ljóst að frumvarpið frá því í sumar var miklu betra frumvarp og síðan lög en það sem hér liggur fyrir núna, þar er mikill munur á.

Viðbrögð Breta ef þetta verður fellt? Þeir verða örugglega hundfúlir og alveg bandbrjálaðir, en er ekki íslenskri þjóð í rauninni alveg sama um það? Þeir hafa ekki sýnt okkur það mikla kurteisi og skilning að þeir eigi inni einhverja vorkunn hjá okkur varðandi það. Við megum aldrei gleyma því, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, að Bretar og Hollendingar eiga að sameiginlegt að þeir vilja fá frá okkur aura, þeir vilja fá frá okkur peninga og saga þessara þjóða er þannig að við getum alveg gleymt því að þeir muni gefa það eftir að fá þessa aura. Stefni þeir okkur fyrir dóm er það fínt, það er bara gott. Hugsanlega verðum við þá dæmd til þess að greiða þetta en það verður að mínu viti þá aldrei meira en við munum hugsanlega samþykkja með þessum lögum sem er að greiða hverja einustu krónu í topp (Forseti hringir.) og fram í framtíðina eins lengi og við mögulega getum.