138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum sagt, þó að það sé jafnvel gegn sannfæringu okkar og vilja varðandi þessa skuld, að líklega munum við þurfa að standa skil á henni með einhverjum hætti. Ef sú viðurkenning er ofan á þurfum við vitanlega að gera það á forsendum sem hugnast okkur.

Í máli sem þessu, sem er í raun milliríkjadeila, er mjög undarlegt að við séum að gera samning sem byggir að mínu viti á einkarétti á viðskiptalegum forsendum. Það á vitanlega að leysa þetta mál í samræðum og samstarfi, með samvinnu þeirra ríkja sem þarna koma að borðinu en ekki á þeim forsendum sem unnið er út frá í samningum.

Varðandi lagalegu hliðina, miðað við hvað er búið að upplýsa mig um varðandi þennan samning, óttast ég, þó að ég sé ekki löglærður maður, að það sé beinlínis hættulegt fyrir samninginn og íslenska þjóð að um hann skuli gilda eingöngu bresk lög (Forseti hringir.) og að allur málarekstur fram í breskum dómsal.