138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið heilmikil hætta í sumar þegar við vorum rétt að byrja að endurreisa bankakerfið, þegar ekki hafði verið gripið til neinna aðgerða fyrir heimilin í landinu, þegar mjög illa horfði með marga þessa þætti, og að sjálfsögðu bættist við áhættan varðandi lánskjör Íslands sem gerði myndina jafnvel enn svartari. En í það minnsta hafa bankarnir gengið fram með þeim hætti sem hér hefur verið lýst og er ástæða til að gleðjast yfir því. En þá hljótum við jafnframt þegar kemur að lánshæfismati að velta fyrir okkur hverjar verða langtímaafleiðingarnar fyrir lánshæfismat Íslands ef við göngumst undir Icesave-fyrirkomulagið eins og lagt er upp með í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Ef við tökum þá áhættu á okkur t.d. sem þjóð að hér verði lítill hagvöxtur og þar af leiðandi verði greiðslurnar óbærilega þungar og/eða ef heimturnar úr búi Landsbankans verða minni en ætlað er. Getur hv. þingmaður verið sammála mér að þetta mun búa til langvarandi áhættu hvað varðar lánshæfismat Íslands?