138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni með að þetta getur og mun örugglega hafa áhrif á lánshæfismat Íslands ef það er þannig að við skiljum eftir til framtíðarinnar hundruð eða þúsundir milljarða sem ríkir í fyrsta lagi mikil óvissa um og eru á kjörum sem eru að mínu viti algerlega óforsvaranleg.

Hvað næst? Ég velti því fyrir mér, frú forseti, ef það verður þannig að ríkisstjórnin gefst upp á að hræða okkur með lánshæfismatinu, verður okkur þá hótað með því að Trölli steli jólunum ef það gengur ekki eftir? Hvar mun þessi vitleysa enda? Það er búið að hrekja þetta viku eftir viku, mál eftir mál, að það er ekki þannig að hér muni eitthvað stórt gerast, frú forseti, ef við greiðum þetta ekki. Það sem mun gerast er að þessar tvær þjóðir, Hollendingar og Bretar, fara í fýlu við okkur og munu vilja fá peningana sína.