138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt. Innstæður á Íslandi hafa vaxið mjög undanfarið og þær eru að nálgast 2.000 milljarða. Tilskipunin sem ég las upp áðan — hún hefur ekki komið inn í umræðuna áður, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, vegna þess að sagt er að menn séu að endurtaka sig — gerir það að verkum að ríkisábyrgð verður á öllum þessum innstæðum upp á 2.000 milljarða. Það þýðir að skuldbinding ríkissjóðs vex um 2.000 milljarða til viðbótar við það sem við höfum upplifað hingað til. Ég vil að menn skoði þetta mjög nákvæmlega og fari í nefndum þingsins í gegnum þessar tilskipanir sem eru orðnar hálfsárs gamlar, hvorki meira né minna, og breyta algerlega umhverfi fjármálastofnana og algerlega forsendum þess samnings sem við ræðum um.

Það er annar handleggur, og ég vildi gjarnan minna þingmanninn á það, að Evrópusambandið er að breyta tilskipun. Af hverju skyldi það breyta tilskipun yfir í það að ríkið beri ábyrgð á þessu? Vegna þess að ríkið bar ekki ábyrgð á þessu. (Gripið fram í: Rétt.) Af hverju skyldu Íslendingar þá bera ábyrgð á þessu, íslenska ríkið, gagnvart Bretum og Hollendingum þegar svo var ekki almennt í Evrópusambandinu? Og hvernig halda menn að Bretar og Hollendingar leysi þennan fjárhagsvanda síns innlánstryggingarsjóðs? Þeir láta hið sterka bankakerfi í sínum löndum borga þetta.

Niðurstaðan verður þá sú, frú forseti og hv. þingmaður fjárlaganefndar, að það eru íslenskir skattgreiðendur, verkamennirnir norður á Raufarhöfn og norður á Ísafirði, sem einir skattgreiðenda í Evrópu borga innlánstryggingarkerfið.