138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir afar gott svar. Þarna er kominn mergurinn málsins. Þetta er alveg hreint með ólíkindum. Hér er stjórnarandstaðan sögð endurtaka sig en í hverri einustu ræðu koma þó fram ný rök. Þessi tilskipun sem var lögtekin í júní hjá Evrópusambandinu gengur út á það — í reglugerð er ákvæði um að ríkisábyrgð skuli vera á þessu til framtíðar, 50 þús. evrur fyrir hvern innstæðutryggingarsjóð. Það er verið að lögfesta að ríkisábyrgð sé á þessu. Og þetta skulu Íslendingar fá að gjalda fyrir, gallað regluverk Evrópusambandsins. Þetta er óþolandi, þetta er alveg hreint óþolandi.

Svo að við snúum okkur aðeins að dómskerfinu, ríkisstjórnin er að leggja til að dómskerfið fari úr landi og við erum búin að afsala okkur því, þriðja valdinu í þrígreiningu ríkisvaldsins. Það kemur þarna inn nýtt frumvarp sem verður viðaukasamningur við Icesave-samninginn. Þar með falla friðhelgisréttindin inn í Icesave-samninginn og um hann gilda bresk lög þó að ákvæði sé í viðaukasamningum sem segir að samningsaðilar séu sammála um þá túlkun að friðhelgisákvæðið sé sterkt þarna inni og gildi ekki og ekki heldur náttúruauðlindamissir — telur þingmaðurinn það ekki liggja í augum uppi að reyni á þennan samning fyrir dómstólum, sem kannski kemur til með að gera, og dæmt verður í breskum lögum dæmi dómstóllinn eftir breskum lögum og friðhelgisákvæðum sé rutt í burtu á þann hátt að það eru til bresk lög síðan 1978 sem heimila að taka friðhelgisréttindin af þjóðum? Þetta er mjög alvarlegur hlutur og þetta hefur ekki verið rætt. Ég reyndi að benda á þetta fyrir helgina en það er alveg sama hvað borið er á borð fyrir ríkisstjórnarmeirihlutann, það er ekki hlustað, menn stinga hausnum í sandinn.