138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[22:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að gleðjast yfir því að menn skuli hafa farið að skoða dagskrána pínulítið betur og flutt mál fram fyrir sem mikilvægara er að taka fyrir.

Hv. formaður fjárlaganefndar ræddi ýmislegt og það var mjög fróðlegt en það sem var fróðlegast var það sem ekki var rætt. Í fyrsta lagi að það skuli verið að eyða því sem eru óráðstafaðar fjárveitingar stofnana um áramót, það getur valdið því að forstöðumenn reyni eins og þeir mögulega geta að eyða því fyrir áramót þannig að það verði ekki svo mikið um áramót til að taka af þeim, því að þeir hafa væntanlega frestað einhverjum framkvæmdum vegna þess að það vantaði kannski iðnaðarmenn eða eitthvað slíkt og nú munu þeir drífa í því að koma þessu í lóg.

En það sem mig langaði að ræða eru þau tvö atriði sem mér finnst vanta. Það er í fyrsta lagi tónlistarhúsið, mér finnst vanta inn í þetta að það sé rætt um þær gífurlegu framkvæmdir sem þar eru í gangi. Það eru gífurlegar framkvæmdir, það er gífurlegur innflutningur og það er eins og enginn eigi að borga það. Þetta fellur undir þetta ár, frú forseti, þetta eru fjárveitingar þessa árs, alveg sama hvað menn kalla það, samning við eitthvert einkafyrirtæki.

Síðan er spurningin um Icesave. Hæstv. fjármálaráðherra er búinn að skrifa undir samning um Icesave, tvo meira að segja. Alþingi er búið að samþykkja lög frá því í vor sem eru í gildi á Íslandi um að það veiti ríkisábyrgð með skilyrðum á þennan samning sem undirritaður var 5. júní. Hvað í ósköpunum veldur því að sá samningur upp á 700 milljarða er ekki inni í fjáraukalögunum? Hvernig stendur á því, frú forseti, að sú upphæð upp á 700 milljarða er ekki inni í fjáraukalögunum? Það er búið að skuldbinda ríkissjóð fyrir þessari upphæð með bæði undirskrift fjármálaráðherra og með fyrirvörum Alþingis frá því í sumar.