138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[23:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður segir að það ber að harma þegar fjárlögum er ekki fylgt eftir. Hvað varðar niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni upp á 6–7 milljarða á þessu ári held ég að mér sé óhætt að fullyrða að það hafi í rauninni víðast hvar tekist mjög vel til. Stofnanir úti um allt land hafa verið að taka niður rekstur sinn um allt að 9% á þessu ári og það hefur gengið vel án þess að biðlistar hafi lengst og án þess að þjónustuskerðing hafi verið þannig að landlæknir geri athugasemdir við það. Þvert á móti hefur verið staðfest í reglubundnu eftirliti af hálfu landlæknisembættisins að svo hafi ekki verið, biðlistar hafi ekki lengst og aðgangur að þjónustu hafi ekki versnað. Það getur orðið erfiðara að framfylgja þessu á næsta ári en til þess þarf fyrst og fremst að efla vaktina á því að þjónustan skerðist ekki.

Þar sem ekki hefur tekist til eins vel og menn ætluðu sérstaklega hvað varðar Landspítalann, eins og ég rakti áðan, er þó útlit fyrir að það muni takast á næsta ári. Ég leyfi mér að fullyrða að yfirstjórn Landspítalans er fyllilega samtaka í því að standast þá aðlögunarkröfu sem gerð er samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og til viðbótar þeim hallarekstri sem spítalinn skilar því miður á þessu ári.