138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[23:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hennar að heilbrigðisstofnanir utan Kragans hafa samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar náð töluverðum árangri í verkum sínum. En ef ég man þetta rétt gerðu fjárlög ársins 2009 ráð fyrir því að hagræðingarkrafan sem sett var á, næmi um 550 millj. kr. Ég hef engar upplýsingar um hvernig gengið hefur að ná fram þeirri hagræðingu vegna þess að við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um það í fjárlaganefnd frá fjármálaráðuneytinu um hvernig tekist hefur til um framkvæmd fjárlaga. Okkur skortir með öðrum orðum upplýsingar í fjárlaganefndinni til að geta rækt þetta eftirlitshlutverk okkar og ég lýsi yfir því fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna í nefndinni að við munum að sjálfsögðu leggja ráðherranum lið eftir föngum við að standast þau mörk sem fjárlögin setja, hvernig svo sem það mun líta út á endanum. Í því sambandi mætti nefna að ekki veitti fjárlaganefndinni af auknum starfskröftum eins og heilbrigðisráðuneytinu við sinn rekstur. Þar mundu liggja um 150 milljarðar kr. en fjárlaganefndinni er ætlað að hafa eftirliti með rekstri og eyðslu skattfé fyrir rúma 400 milljarða en til viðbótar lánsfé upp á rúma 150–200 milljarða þannig að fjárlaganefnd hefur eftirlitsskyldu með hátt í 600 milljörðum kr. og veitti ekki af auknu starfsliði þar. Með þessu er ég alls ekki að lasta starfsmenn nefndasviðs eða fjárlaganefndar heldur bendi ég einfaldlega á að verkefnin sem þar er við að glíma eru mikil. Við sjáum það ágætlega í þeim viðfangsefnum sem fjárlaganefndin glímir við núna að okkur veitir ekki af því að fá meiri krafta og betri aðgang að upplýsingum til að þingið sjálft geti rækt þær skyldur sem lög bjóða.