138. löggjafarþing — 35. fundur,  1. des. 2009.

tekjuskattur o.fl.

226. mál
[00:05]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Hæstv. forseti. Ég lýsi þeirri afstöðu hér fyrir hönd sjálfstæðismanna sem sitja þingfund á hinu háa Alþingi á þessum hátíðisdegi að við höfum sömuleiðis allan fyrirvara á þessu máli, við viljum greiða götu þess í gegnum þingið nú til þess að það komi sem fyrst til meðferðar í nefnd. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er umdeilt mál og ber að skoða það mjög vendilega. Ég efast ekki um ætlan hæstv. ráðherra í því efni að vinna málið þannig að áhrifin af þessum tillögum dreifist jafnt yfir landið en meginmarkmiðið með frumvarpinu er að auka hagkvæmni og ná fram lækkun kostnaðar í rekstri skattkerfisins. Áætlun skrifstofu fjármálaráðuneytisins í þeim efnum lýtur að því að unnt verði að ná fram 140 millj. kr. lækkun á rekstrarkostnaði skattkerfisins.

Í ljósi þeirra tillagna og hugmynda sem uppi eru um breytingar á skattkerfi landsmanna, þ.e. að hverfa frá þessu einfalda skattkerfi sem verið hefur í tekjuskatti til þessa þriggja þrepa skattkerfis ásamt þeim breytingum sem boðaðar eru á innheimtu og álagningu virðisaukaskatts, hlýtur maður að hafa ákveðinn fyrirvara á því kostnaðarmati sem hér liggur fyrir varðandi lækkun útgjalda ríkissjóðs á rekstri skattkerfisins. Ég held að það sé óumdeilt og óhjákvæmilegt að kostnaður við breytt skattkerfi í þeirri mynd sem boðað hefur verið muni aukast frá því sem verið hefur þannig að ég hef allan fyrirvara á þeirri tölu, á þeirri 140 millj. kr. hagræðingu, sem kemur fram í kostnaðarumsögninni með frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Með þessum orðum vil ég ljúka máli mínu en legg áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur allan fyrirvara á þessu, hann greiðir götu málsins til nefndar þar sem ætlast er til að farið verði vendilega yfir málið.