138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er í raun og veru ágætt að þetta mál skuli vera tekið upp á hinu háa Alþingi. Mér kom það líka mjög á óvart þegar ég las þær fréttir sem birtust í vefmiðlum um uppsagnir hjá þessu ágæta fyrirtæki á 60 starfsmönnum og mér varð þá strax að orði: Hvernig ætla þeir að vinna þau verk sem þeir hafa tekist á hendur á vegum Vegagerðarinnar með aðeins 24 mönnum?

Í gær átti ég mjög góðan fund með forsvarsmanni þessa fyrirtækis þar sem fram komu í raun og veru þau gleðilegu tíðindi, sem var ekkert nýtt fyrir forstjóranum, að sú uppsögn sem þarna sé sett fram sé fyrst og fremst varúðarráðstöfun og hún sé dálítið mikið afbökuð í fjölmiðlum. Það kom skýrt fram að verði veður þannig á norðausturhorninu — vegna þess að þessi verktaki er að vinna bæði á Vopnafjarðarheiði og svokölluðum Raufarhafnarlegg og er svo með vegkaflann á Suðurstrandarvegi líka sem er verið að vinna, verði veður þar gott þurfi ekki að koma til neinna uppsagna. Þetta sé fyrst og fremst varúðarráðstöfun ef geri mikinn vetur og ekki verði hægt að vinna á þessu svæði. Þarna kom fram að hvorki fleiri né færri en 70 manns eru að vinna á þessu svæði á vegum þessa verktaka og því verði haldið áfram.

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að á vefmiðlum og annars staðar í umræðunni var eins og þarna væri endanleg uppsögn á 60 starfsmönnum sem er auðvitað mjög alvarlegt mál.

Ég deili svo með öllum öðrum áhyggjum af ástandi á verktakamarkaðnum. Ég vil aðeins segja það í lokin, virðulegi forseti, að á næsta ári eru verk í gangi á vegum Vegagerðarinnar fyrir hvorki meira né minna en 9–10 milljarða kr. eða 0,9% af vergri landsframleiðslu og það er svipuð tala og var í aðdraganda góðærisins árin 2000–2007, það getur spilað aðeins 0,1% til eða frá. Staðan er ekki verri en það, virðulegi forseti, en vissulega er það svo og það taka auðvitað allir undir að það er alvarlegt (Forseti hringir.) að þurfa að draga úr þessu, en ég er sannfærður um það að þegar við klárum fjárlög og förum að vinna að þessu fyrir árin sem koma þar á eftir, þá á eftir að koma til útboða á næsta ári á ný fyrir verk sem munu þá teygja sig yfir á 2011–2012.