138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

vinnubrögð á þingi -- atvinnumál -- skuldsetning og hagvöxtur.

[11:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svar hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Ég átti von á því að hún mundi fara í gegnum það sem hagfræðingur hvaða áhrif það hefur á hagvöxt að skuldsetning ríkis og þjóðar er orðin þvílík eins og hér á Íslandi en ég fékk ekki svar við því. Ég fékk heldur ekki svar við því hvaða áhrif það hefur á t.d. fólksflutninga að mest menntaða og yngsta fólkið fari til útlanda að leita sér að vinnu sem gefur meiri möguleika og bjartari framtíð en sú skuldsetning sem hér er.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að skuldir sem fara til arðbærra fjárfestinga eru ekki slæmar. En það er ekki um það að ræða hérna. Nú nefndi hv. þingmaður Icesave sem ég nefndi ekki einu einasta orði en ég verð víst að taka það upp fyrst hv. þingmaður nefndi það. Það er ekki skuldsetning sem fer til arðbærra fjárfestinga. Þar er verið að taka á sig ábyrgð sem einhverjir allt aðrir menn eyddu og það að nefna það alltaf stöðugt, eitthvað sem gerðist fyrir hrun eða í hruninu, finnst mér vera lélegt. Þessi ríkisstjórn er gerandi, hún er núna gerandi og er búin að vera gerandi í 10 mánuði og hún verður að fara að taka ábyrgð á því sem hún er að gera. Það er hún sem gerði samninginn um Icesave. (Gripið fram í: Þið líka.) Það var enginn annar sem gerði samninginn um Icesave heldur en núverandi hæstv. fjármálaráðherra. Hv. þingmaður verður að standa sína plikt og bera ábyrgð á því sem ríkisstjórn hennar sem hún styður er að gera. (Gripið fram í: Hver tók ákvörðun um að semja um Icesave?)