138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[11:04]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Mjög takmarkaður tími gafst til að ræða fjáraukalagafrumvarpið vegna mikilla anna við aðra þætti efnahagsmála og eins og kom fram í framsögu minni með áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar með fjáraukalögunum eru mjög stórir þættir sem tengjast fjáraukalagagerðinni óútskýrðir enn og fjárlaganefnd bíður eftir svörum. Við fengum raunar greinargerð varðandi tekjuhlutann um miðjan dag í gær frá Ríkisendurskoðun. Þar eru slíkar stærðir uppi, mjög óvissar, að óforsvaranlegt er að okkar mati að afgreiða málið með þeim hætti sem hér er lagt til. Því munum við sitja hjá við þá afgreiðslu sem hér liggur fyrir og áskiljum okkur rétt til að koma fram við 3. umr. með breytingar ef svo vill verkast varðandi tekjuhluta fjáraukans.