138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:16]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Það er verið að ræða kvöldfundi. Þetta er í beinu samhengi við það sem ég talaði um áðan um störf þingsins, að ekki virðist standa steinn yfir steini í skipulagningu og verklagi á þinginu. Það er farið af stað með ósk um kvöldfund án þess að menn viti hvað hann muni standa lengi. Hér er margt fólk með fjölskyldur og börn og það þarf að sinna þeim líka. Kannski er það æðsta ósk meiri hluta stjórnarinnar að hér verði ekkert nema nánast ellilífeyrisþegar sem þingmenn og að fólk geti ekki sinnt fjölskyldum sínum. Það er ekki æskilegur þverskurður af þjóðinni að hafa slíkt þing. Það er æskilegur þverskurður af þjóðinni að hafa þingmenn úr öllum aldurshópum og ég held að menn ættu að fara að taka tillit til þess en ekki að vera með þing samansett af gráhærðu fólki sem er að komast eða er komið á eftirlaunaaldur. Það er lágmarkskrafa að tekið sé tillit til allra í landinu.